Select Page

Pistill

FLÖKKUTAUGIN FÆRIR HLÝJU Í BRJÓSTKASSANN. HIN SANNA SAMKENNDARTAUG

Greinar

Við sem ástundum jóga og hugleiðslu vitum öll að það gerir líkama og huga gott eitt. Fáir hafa þó fram að þessu getað sett fingurinn nákvæmlega á hvers vegna. Og þaðan af síður af hverju jóga og hugleiðsla draga úr þunglyndi, depurð, ótta, sykursýki, verkjum og jafnvel flogaveiki og áfallastreitu.

Fyrir fáeinum árum lagði hópur vísindamanna við Boston University School of Medicine mikið á sig við rannsókn málsins og komst á sporið um leyndardóminn á bak við jóga og hugleiðslu. Í grein sem birt var í Medical Hypotheses Journal undir heiti sem er nær ómögulegt að skrifa í einni bunu (sjá neðst í grein) lögðu Chris Streeter, PhD og hans vísindahópur fram kenningu þess efnis að jóga kæmi jafnvægi á taugakerfið og ekki nóg með það heldur sögðu þeir til um hvernig: Með því að virkja flökkutaugina elfdi það getu líkamans til að bregðast við streitu. Flökkutaugin er hluti af parasympatíska taugakerfinu (sefkerfinu). Fyrir þá sem ekki vita er flökkutaugin mjög löng taug sem sem liggur frá heila og hefur mikil áhrif á starfsemi ýmissa líffæra, svo sem hjarta, lungna og maga.

Hvað er flökkutaug?
Margir hafa ekki hugmynd um að í okkur býr flökkutaug/vagustaug og þaðan af síður að það þurfi að virkja hana og styrkja, en það er sannarlega ráð.
Flökkutaugin er lengsta og mikilvægasta heilataugin sem á upphaf sitt í botni höfuðkúpunnar og liggur í gegnum allan líkamann. Hún hefur þannig áhrif á öndunina, meltinguna og taugakerfið. Gjarnan er litið á hana sem “umferðarstjórnandann”, þar sem flökkutaugin hefur áhrif á alla mikilvægustu þætti líkamstarfsemi okkar. Andardrátt, hjartslátt, meltingu sem og hæfileika okkar til að upplifa, vinna úr og fá botn í reynslu okkar. Þetta er allt beintengt við flökkutaugina.

Við finnum með margvíslegum hætti og á mörgum “levelum” þegar flökkutaugin er styrk og virkar eins og hún á að gera. Það er þegar meltingin er góð, hjartslátturinn er eins og hann á að vera og geðið í jafnvægi. Við eigum auðvelt með að fara úr álagi yfir í ró og getum tekist á við áskoranir lífsins með hæfilegri blöndu af krafti, stefnufestu og hægð. Þegar við náum að halda þessum sveigjanleika í daglegu lífi er flökkutaugin sterk.

Vanvirk flökkutaug leiðir til einskonar tæmingar.

Melting okkar verður hæg og þung, hjartsláttur eykst, skapið verður óútreiknanlegt og erfitt að hemja. Það kemur því ekki að óvart að vanvirk flökkutaug sé líffræðilega beintengd þunglyndi, stöðugum verkjum, flogaveiki og jafnvel áfallastreitu. Of svo vill til að það dregur helst úr þessum einkennum við iðkun jóga og stundum hugleiðslu. Þannig drógu vísindamennirnir þá ályktun að örvun og styrking flökkutaugarinnar með jógaiðkun dragi úr fyrrnefndum einkennum.

Til þess að sanna tilgátu sína rannsökuðu vísindamennirnir æfingar sem þeir höfðu trú á að hefðu áhrif á flökkutaugina. Til dæmis komust þeir að því að öndunaræfingar með viðnámi, eins og ujjayi pranayama, auka svörun líkamans við slökun og breytileika hjartarsláttar (sem er til marks um gott þanþol). Tilraunin leiddi ennfremur í ljós að reynslumiklir jógar sem söngla OM upphátt hafa enn virkari og styrkari flökkutaug en þeir sem söngla í hljóði.

Vísindarannsóknir eins og þessar eru bara rétt að ná að svipta hulunni af því hvernig jógaæfingar hafa lífræðileg áhrif á okkur með ólíkum hætti

Fyrir nokkru kallaði svo taugavísindamaðurinn Stephen W. Proges, sem starfar við Háskólann í Illinois í Chicago, fyrstur manna í vísindaheiminum, flökkutaugina samkenndartaugina, jafnvel þótt hún gegni líka margvíslegum öðrum hlutverkum. Alltént þegar hún er virkjuð færir hún einnig meira rými og hlýju í brjóstkassann. Við verðum líka móttækilegri fyrir hlýju annarra, fallegri list og undursamlegri tónlist.

Nýlegar ransóknir benda jafnframt til flökkutaugin hafi mikið með traust og móðurást að gera. Þannig að ef hún er vel virk þá er fólk líklegra til að finna til meiri kærleika, hamingju, þakklætis, óeigingirni og auðvitað meiri samkenndar.

Ps: Eitt af því áhugaverða sem komið hefur fram við taugarannsóknir á undanförnum árum og þvert á það sem flestir töldu, þá liggja 80% taugabrauta ekki frá heila til hjarta heldur öfugt, frá hjarta til heila. Þannig má í raun segja að hjartað sé að stórum hluta upplýsingamiðill fyrir heilann um hvað á sér stað í iðrum okkar. Semsé þegar fólk segist talar frá hjartanu, þá er það raunverulegt.

Fyrir utan jóga og hugleiðslu örvar þetta einnig flökkutaugina/vagustaugina:

Hávært gargl með vatni eða olíu, eða kröftugur söngur.

Fótanudd: Milt en um leið þétt fótanudd örvar vagustaugina.

Dýfðu andlitinu í kalt vatn. Settu augun, ennið og að minnsta kosti 2/3 af báðum kinnum í kalt vatn. Þetta örvar vagus taugina, hægir á hjartslætti, örvar þarmahreyfingar og kveikir á ónæmiskerfinu. Það sama gildir um gott sjósund. Það örvar þessa merkilegu og mikilvægu taug.

Hlátur: Styrkir ónæmiskerfið og örvar vagustaugina.

Hér eru 9 fasinerandi staðreyndir um vagustaugina. Endilega lesið:

heimildir:

Rannsónin ber titilinn: The Effects of Yoga on the Autonomic Nervous System, Gamma-aminobutyric-acid, and Allostasis in Epilepsy, Depression, and Post-traumatic Stress Disorder. Sjá nánar úrdrátt hér:http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/22365651
Ps. Þessi grein var skrifuð af Systrasamlaginu árið 2014 en hefur síðan verið uppfærð.