UPPSELT -DJÚSÍ DJÚPSLÖKUNARDAGAR - fimm daga námskeið í Systrasamlaginu

verð:19.800 kr.

Uppselt

 UPPSELT ER Á NÁMSKEIÐIÐ

Djúsí djúpslöknunardagar með Heiðu Björk í Systrasamlaginu
10. – 14. mars 2019
5 skipti Jóga Nidra með gong tónheilun.
Fræðsla um næringu og bætiefni sem stuðla að slökun
 

Djúsí djúpslökunardagar verða haldnir daganna 10.-14. MARS í Systrasamlaginu. Þá daga munum við dýfa okkur ofan í heim slökunar og kyrrðar undir styrkri en um leið notalegri leiðsögn Heiðu Bjarkar Sturludóttur jóga nidra kennara og næringarþerapista. Ferðalagið hefst sunnudaginn 10. mars og lýkur fimmtudaginn 14. mars.  Þekkt er að fimm daga djúpslökun getur fært þig á alveg nýjan stað í tilverunni. Svefninn batnar, hugurinn kyrrist og þegar líkaminn nær djúpri slökun minnka bólgur og margir hafa vitnað um minni verki með þéttri ástundum.

Það er með öðrum orðum afar áhrifarík leið að ástunda djúpslökun daglega í nokkra daga. Jafnvel þótt dagleg rútína þín sé með svipuðu sniði og venjulega, nær samfella í slökun undir góðri, næmri og lifandi leiðsögn sannarlega að hreyfa við tilverunni.

Djúpslökunardagarnir verða sem hér segir í Systrasamlaginu:

Sun 10. mars 16-19
Mán 11. mars 19-20
þri 12. mars 19-20
mið 13. mars 19-20
fim 14. mars 19-20

Verð námskeiðs er 19.800 kr.

Fyrsta daginn stendur námskeiðið yfir í þrjá tíma. Þá verður Heiða Björk með fræðslu um slakandi öndunaræfingar, bætiefni, jurtir, öpp og lífsstíl og boðið upp á cacaó bolla áður en við förum inn í heim djúprar slökunnar.

Næstu fjóra daga förum við beint inn inn í veröld djúpslökunar undir leiðsögn Heiðu.
 

Hvað er jóga nidra djúpslökun?

Jóga nidra þýðir jógískur svefn. Þú liggur á bakinu á dýnu með púða undir höfði og teppi yfir þér og jafnvel með augnlokur, þeir sem vilja. Þú fylgir síðan leiðbeiningum jóga kennarans, sem fylgir þér í gegnum ákveðna hugarleikfimi sem færir þig dýpra og dýpra niður í undirvitundina.  Þú svífur í ástandi mitt á milli svefns og vöku, líkaminn sefur en hugurinn vakir. Slökunin sem t.d. 30 mínútna jóga nidra gefur jafnast á við 2-4 klst svefn. Í jóga nidra er markmiðið að slaka markvisst á líkamanum og tengja við æðri vitund, hverfa inná við í algera kyrrð.

Þú setur þér ásetning – Sankalpa- í upphafi tímans. Sem er stutt og hnitmiðuð staðhæfing á þínum innstu draumum eða löngunum sem stuðla að þínum persónulega sálarþroska eða er eitthvað sem þú ert að vinna með í sjálfri/sjálfum þér. Dæmi um Sankalpa  getur verið ,,Ég er nógu góð/ur eins og ég  er“, ,,Ég er friðsæl sál“, Ég sé gleði og  fegurð í öllu“, ,,Ég er örugg/ur og einbeitt/ur.“ ,,Ég er róleg/ur og slök/slakur“.

Í þessu djúpslökunarástandi róast taugakerfið og framleiðsla vissra hormóna eykst s.s. dópamíns sem hefur verið tengt við vellíðan. Allar vélar þarf að stöðva endrum og sinnum til að sinna viðhaldi og viðgerðum og sama er að segja með líkamann okkar. Í jóga nidra hægist mikið á starfsemi líkamans og viðhald og viðgerðir taka við.  Með minni spennu í líkamanum, rólegra taugakerfi og jákvæðra áhrifa á hormónakerfið, dregur úr bólgum og verkjum og margir finna fyrir bættum nætursvefni og aukinni orku yfir daginn.  Djúpslökunin hefur áhrif á andlega líðan þar sem losað er um spennu í huganum og hamlandi tilfinningar þynnast upp og hverfa smá saman úr kerfinu.

Með daglegri ástundun fæst meiri dýpt í slökunina, þar sem þú lærir að slaka og sleppa betur með hverri ástundun.

Eftir þessa fimm daga, getur þú haldið jóga nidra ástunduninni áfram í einhverjum af þeim fjölmörgu stöðum sem nú bjóða upp á jóga nidra eða með því að hlusta á hljóðupptöku af jóga nidra heima hjá þér. Við munum mæla með nokkrum.

Mikilvægt er að mæta alltaf í mjúkum fötum á þetta námskeið í Systasamlagið.
Jógadýnur, teppi og púðar eru á svæðinu, en gott er að taka með sér augnhvílu eða mjúkan léttan klút.

Um Heiðu Björk, smelltu HÉR: