UPPSELT. AYURVEDA GRUNNNÁMSKEIÐ M/ PÁLI ERLENDSSYNI 25. MAÍ

verð:12.000 kr.

Uppselt

NÁMSKEÐIÐ VERÐUR HALDIÐ 25. MAÍ FRÁ 18-20.

Ayurvedafræðin eru kölluð vísindi lífsins og því má segja að þessi vísindi og fræði taki nánast á öllum þáttum mannlegrar tilveru. Straumar og stefnur koma og fara en Ayurveda vísindin hafa verið til í um 5000 ár. Þau hafa aldrei átt jafn mikið erindi við okkur og nú: “Í dag erum við mannfólkið sem byggjum þessa jörð oft á tíðum komin svo langt framúr okkur sjálfum að öll tengsl við hrynjanda náttúrunnar og tengingin við vitundina sem slíka er á undanhaldi. Við erum mikið til búin að gleyma því hver við erum,” segir Páll Erlendsson sem að mati okkar systra er einna  fróðastur hér á landi um Ayurveda vísindin og lífstílsfræðin. Páll ætlar að miðla grunnatriðum Ayurveda á námskeiði í Systrasamlaginu mánudaginn 25. MAÍ næstkomandi frá kl. 18.00 til 20.00. Páll hefur menntað sig í Ayurveda fræðunum og hefur á þeim djúpan skilning og mikla reynslu sem ná vel yfir 20 ár aftur í tímann.

“Ayurveda svarar oft kalli fólks sem leitar sjálfsþekkingar á innra og ytra sjálfi og hjálpar okkur um leið að skilja mikilvægi þess að taka ábyrgð á eigin heilsu. Ayurveda eru fyrst og fremst fyrirbyggjandi heilsufræði sem geta hjálpað mikið þegar andleg og líkamleg heilsufarsvandamál „efnisbirtast“ í lífi fólks”, útskýrir Páll og heldur áfram: “Ayurveda útskýrir sjúkdóma og ýmsa kvilla á annan hátt en hin hefðbundna vestræna læknisfræði. Segja má að Ayurveda heilsufræðin innihaldi flest allt sem telst til hinna óhefðbundna heilsu- og læknavísinda. Um leið er sorglegt að sjá hversu algengir lífstílssjúkdómar eru og sérstaklega þar sem auðvelt er að fyrirbyggja þá og jafnvel lækna með náttúrulegum aðferðum.”

Hitt er ljóst að almenningur er í sívaxandi mæli að sækjast eftir á mildari nálgun og náttúrulegri aðferðum til að viðhalda eigin heilsu. Þar eru Ayurveda fræðin í fyrirrúmi. Fleiri og fleiri læknar líta til Ayurvedísku vísindanna og oft eru aðferðir innan Ayurveda notaðar meðfram vestrænum læknavísindum. Það sýnir okkur að báðar vísinda aðferðirnar eiga samleið og styrkja hver aðra. Það getur sannarlega gert lækningar við ýmsum sjúkdómum mun skilvirkari og árangursríkari.

Það er áhugavert að segja frá því að læknanemum við Maryland háskólann í Bandaríkjunum er kenndur áfangi í Ayurveda heilsufræðunum. Nýlega var gefin út bók sem hinn virti hjartalæknir Alejandro Junger skrifaði, en hún byggist á því hvernig Ayurveda getur hjálpað okkur að ná og viðhalda góðri heilsu til langs tíma. Svona mætti lengi áfram telja hvernig Ayurveda fræðin eru byrjuð að hafa áhrif á heilsufar fólks í hinum vestræna heimi. "Sem samfélag þurfum við að samræma okkur og íhuga alvarlega hvert við viljum stefna í heilsufarstengdum málefnum og hvernig við getum aftur tengst hrynjanda náttúrunnar," segir Páll.

Þó svo að Ayurveda séu í raun stór og stundum flókin vísindi er hægt að gera þeim góð skil og auka skilning okkar á okkur sjálfum á stuttu námskeiði eins og þessu. Læra um þær leiðir sem Ayurveda mælir helst með til að efla heilsu og vellíðan og hjálpa okkur að tengjast aftur við uppsprettuna sem í okkur öllum býr.

 

Verð á námskeiði: 12.000 kr

Innifalið:

Bók/rit um Ayurveda lífsvísindin eftir Pál Erlendsson

Gullinn túrmerik latte að hætti Systrasamlagsins.

ATH aðeins örfá pláss í boði.

 

Meira um Pál:
Páll hefur lengi haft áhuga á náttúrulækningum. Sem barn hlustaði hann oft á Hallgrím Magnússon lækni þegar Hallgrímur kom fram í viðtölum og kynnti náttúrulækningar í útvarpi og annarsstaðar. Það er áhugavert að segja frá því að sama dag og Páll hóf nám við læknadeild Háskóla Íslands árið 1996 fór hann í fyrsta skipti í heilun á ævinni sem hafði verulega djúp og mikil áhrif á hann. Páll byrjaði síðan að stunda kínverska lífsorkuleikfimi (Chi-Gong) meðfram náminu og síðar sama haust lærði hann Reiki. Þá var ekki aftur snúið enda komst Páll að því að lífsorkan sem flæðir um allt og finnst í öllu er í raun hinn týndi hlekkur innan vestrænna læknavísinda. Páll snéri sér alfarið að því að læra allt um lífsorkuna. Hvernig hægt er að nýta hana og virkja til almennar heilsueflingar og jafnvel til að “lækna” sjúkdóma. Páll hætti í læknisfræðinni og hóf að fullu að læra óhefðbundar lækningaaðferðir og hefur það verið eitt hans helsta áhugamál síðustu 24 árin.

Menntun Páls:
Páll hefur menntað sig í Ayurveda. Má fyrst nefna námskeið sem hann tók hjá David Frawley, stofnanda American Institude of Vedic studies og útskrifaðist þaðan sem Ayurveda lífstílsráðgjafi. Einnig lærði Páll Ayurvedafræðin, Abhyanga nuddaðferðir og Panchakarma meðferðir árið 2003 í Kerala fylki á Indlandi. Páll hefur mikinn áhuga á því hvernig við sem heild getum eflt heilsu, vellíðan og hamingjuástand okkar en það er nefnilega vel hægt og þar kemur Ayurveda lífstíls- og heilsufræðin sterk inn. Ayurvedafræðin kenna okkur að lifa í samhljómi við náttúruna og náttúruöflin og þau færa okkur í raun nær okkur sjálfum.

Páll og tengslin við Indland
Síðan árið 1999 hefur Páll ferðast mikið til Indlands og á hann þar annað heimili í þorpi sem heitir Puttaparthi á Suður-Indlandi. Puttaparthi er kannski best þekkt fyrir að þar bjó andlegur meistari sem hét Sathya Sai Baba og er þorpið mjög andlega sinnað og er andleg miðstöð á heimsvísu. Í þorpinu er til að mynda stór Ayurveda spítali, mikilfenglegt musteri (Ashram) tileinkað öllum trúarbrögðum sem er mjög einstakt og fáséð. Orkan í þorpinu og sérstaklega Ashraminu er með öllu meiriháttar upplífgandi, friðsæl og kærleiksrík.

Ayurveda í vedaritunum
Ayurvedafræðin eiga grunn sinn í vedaritum Indlands en þau voru skráð á sanskrít tungumálinu fyrir nokkrum þúsund árum. Þar er að finna kenningar um næstum allt á milli himins og jarðar, allt frá streitu til íhugunar, tengsl manneskjunnar við náttúruna og hvernig mismunandi árstíðir geta haft ólík áhrif á lífsgæði okkar og heilsu. Ayurvedafræðin útskýra meðal annars hvernig við sem einstaklingar erum byggð upp á ólíkan hátt og hvernig mismunandi matarræði hentar hverri líkamsgerð innan Ayurveda. Líka eru notaðar jurtalækningar, kryddjurtir og ýmiskonar nudd- og hreinsunarmeðferðir (Panchakarma) til að koma heilsunni í gott lag. Einnig tekur Ayurveda á andlegum þáttum okkar og notar hugleiðslu, slökun og möntrur til að hafa áhrif á huga og andlega vellíðan.