Erna Bergmann leiðir möntrumorgna

16.11 2018

Við færum ykkur frábær tíðindi því hið magnaða samstarfsverkefni Slökun í borg, sem staðið hefur yfir í meira en ár, heldur áfram með möntru morgna á miðvikudögum kl. 9.15 í nóvember og desember. Þrátt fyrir að Thelma Björk okkar sé nú komin í barnseignarleyfi. Við þökkum henni innilega fyrir og hlökkum til að fá hana aftur síðar.

Nú fáum við Ernu Bergmann til liðs við okkur. Erna er líkt og Thelma kundalini jógakennari og stundar líka nám í jóga nidra. Hún er einnig hönnuður og stílisti og eigandi Swimslow, sjálfbærs sundfatamerkis sem leggur áherslu á lágmarksáhrif á umhverfið og núvitund.
Velkomin til okkar kæra Erna.

Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.

Hvað er mantra / hugleiðsla?
Mantra / hugleiðsla gengur fyrst og fremst út á að beisla streymi óstýrlátra hugsanna sem geta haft áhrif á andlega burði okkar, stíflað hugarflæði okkar og valdið streitu. Í búddismanum er gjarnan talað um apaheilann sem dæmi um hvernig óstýrlátar hugsanir mannsheilans geta hegðað sér, nánast án þess að við fáum nokkuð við ráðið. Líkt og þær hoppi og skoppi á milli trjágreina og unni hvorki sér (huganum) né okkur (líkamanum) hvíldar.

Með regulegri hugleiðslu getur fólk gert ráð fyrir því að andleg og líkamleg vellíðan aukist. Mjög líklegt er að hugleiðsla færi ekki bara ró og frið heldur líka tilfnningalegt jafnvægi. Það kemur okkur ekki bara til góða rétt á meðan við hugleiðum heldur hefur reglubundin hugleiðslu áhrif á daglegt líf okkar. Iðkun hugleiðslu er afar líkleg til að tappa af yfirfullum huganum sem kann að valda okkur streitu frá degi til dags.

Sjá nokkur dæmi um áhrif hugleiðlu á tilfinningar og veikindi/sjúkdóma hér. 
https://systrasamlagid.is/read/2016-06-09/hugleidsla-fra-a-o/

SLÖKUN Í BORG, fyrir alla, er samstarfsverkefni Thelmu Bjarkar jógakennara og Systrasamlagsins.