SJÁLFSNUDD & HEILUN

28.02 2019

Vandaðar grunnolíur sem innhalda virkar lækningajurtir eru ein af undirstöðuþáttum indversku lífsvísindanna, Ayurveda. Mælt er með daglegu sjálfsnuddi upp úr heitri olíu í þeim sígildu fræðum. Þannig megi ekki bara ráða bót á margskyns minniháttar kvillum heldur ef til vill koma í veg fyrir þá stóru en líka þjálfa sig í sjálfsþekkingu og sjálfskærleika. Meginmarkmið Ayurveda er enda að fyrirbyggja alvarlega sjúkdóma. Þykir olíunudd ein öflugasta leiðin til þess og er sannarlega ein af bestu leiðunum til að hjálpa til við hreinsun líkamans.


Getið er um góð áhrif daglegs sjálfsnudds undir heitinu abhyanga í hinum 5000 ára gömlu vedísku ritum. Lagt er til 15 mínútna nudd á hverjum einasta morgni (eða kvöldi) upp úr volgri eða heitri olíu. Annars vegar til að tryggja góða daglega líðan og hins vegar styður það óneitanlega við aukna núvitund og “self-compassion” eða kærleik í garð okkar sjálfra.

Mælt er með að þú nuddir þig hátt og lágt og látir þá olíuna og jurtirnar sem henta þinni líkamsgerð frásogast vel inn í líkamann. Þannig áttu að ná að vinda ofan af þér, nærast líkamlega og andlega, losa líkamann við uppsöfnuð eiturefni og jafnvel einnig að móta hann. Nuddið kemur jafnframt jafnvægi á dosur líkamans (vata, pitta kafa), er róandi, eykur lífsþrótt, bætir svefn, dregur úr stífleika og færir húðinni ljóma. Að auki nærðu til allra líkamansparta, sem er mjög mikilvægt.

Afrakstur daglegs nudds upp úr heitri olíu:

Eykur blóðflæði, ekki síst til okkar fíngerðu taugaenda

Róar taugakerfið

Mýkir liði

Eykur núvitund

Hreinsar og þéttir húð

Eykur teygjanleika húðar

Bætir svefn

Formar líkamann

Eykur lífsþrótt

Það sem einnig kemur skýrt fram í vedísku textunum um abhyanga er hin mikla áhersla á að við fáum tækifæri til að frásoga lækningajurtirnar í gegnum okkar stærsta líffæri, húðina. Um leið leið nær húðin að hreinsa út óhreinindi. Kannski ekki ólíkt því að láta smyrja bílinn reglulega, nema hér er mælt með daglegri umhirðu.


Að bera olíu á líkamann – góð ráð!

Hitaðu olíuna undir heitri vatnsbunu eða settu í vatnsbað, líkt og þegar þú ert að bræða súkkulaði eða smjör.  Hafðu hana vel heita. Það er notalegra. Komdu þér í núvitundarástand. Vertu með sjálfri/um þér. Hafðu hugann við þann líkamspart sem þú ert að bera á hverju sinni.

Sittu eða stattu á handklæði og vertu í herbergi sem er hlýtt og notalegt, sem oftast er inn á baði. Gott er að taka frá sérstakt handklæði sem þú notar eingöngu fyrir olíunuddið.

Notaðu lítið af olíu í einu og nuddaðu vel þar til hún fer inn í húðina.  Gerðu eins og almennt er ráðlagt, byrjaðu á fótunum (og já iljunum líka) og nuddaðu uppeftir líkamanum í hringlaga hreyfingum. Notaðu báðar hendur. Þeir sem eru háir í vata orku ættu að hafa hreyfinganar mýkri en kafa týpurnar kröftugri. Pitta líkamsgerðin er þar á milli.

Höfuð og fætur!
Við höfuðið er best að byrja á enninu og gagnaugum og fikra sig upp að hárinu. Það er róandi að nudda höfuðleðrið vel, sérstaklega fyrir vata sem eru gjarnan viðkvæmari þar en aðrir. Ef þú ert með sítt hár er gott ráð að setja olíu í dropateljara og nudda svo hársvörðinn.
Ef þú nuddar þig að kvöldi er mjög gott ráð að sofa með olíuna í hárinu og ekki síður á fótunum en fara þá í bómullarsokka. Nætursvefninn verður betri. Vittu til.
Með fæturnar er best að sitja á handklæði á gólfinu og gefa sér tíma til að nudda ristar og iljar. Og fara svo í bómullarsokka.
Það afskaplega gott að setja olíu í allt hárið af og til - ekki endilega á hverjum degi- og sofa með hana. Daginn eftir er trikkið að setja fyrst sjampó í hárið áður en það er bleytt. Þannig náum við olíunni úr.

Ayuvedísku olíurnar fyrir hverja eða allar líkams/hugargerðir!

Pitta líkamsolían: Ayurveda jurtir eru notaðar til að koma jafnvægi á ríkjandi pitta. Þær losa okkur við umfram hita og stífni en eru um leið slakandi og draga úr þeirri spennu í vöðvum sem pitta ójafnvægi getur valdið. Mælt er með daglegu sjálfsnuddi sem nærir húðina en það er einmitt í húðinni sem pitta týpurnar safna gjarnan upp heilmikilli spennu.

Pitta týpurnar eru með ríkjandi eld og vatn í líkama sínum. Líffræðileg umbreyting í líkamanum krefst alltaf þessarra frumefna, þ.e. meltingin, efnaskiptin, líkamshitinn, skynjunin og skilningurinn. Pitta líkamsgerðin er drífandi og metnaðargjörn og ætti því sannarlega að taka reglulega frá tíma til að róa sig niður og kæla.  

Kafa líkamsolían:
Er hressandi olía inniheldur jurtir sem gefa orku, ræsa kerfið og auka hreyfigetu. Kafa týpurnar mega gjarnan nudda sig kröftuglega. Góð kafa olíublanda dregur úr ofgnótt kafa og ýtir undir svita, hreinsun líkamans og örvar blóðrásina. Ríkjandi kafa líkamsgerð þarf gjarnan á hressingu og endurnæringu að halda og ætti því að bæta þessarri olíu við daglega rútínu sina.

Kafa líkamsgerðinni er stjórnað af frumefnunum jörð og vatni. Auðvitað grunnur okkar allra og sá þáttur sem mótar líkamann. Kafa hefur líka með innri líffæri okkar að gera og fitumólíkúlin sem þurfa á sérstakri örvun að halda með daglegu sjálfsnuddi og ríkulegu magni af olíu.

Vata líkamsolían:
Yngjandi olía sem nærir og jarðtengir vata orkuna. Samkvæmt Ayurveda er engin önnur líkamsgerð sem þarf eins mikið á olíu og daglegu nuddi halda til að viðhalda ró, styrk og fegurð.

Vata stjórnast af frumefnunum lofti og eter. Allar tilfinningar okkar krefjast vata en auk þess andardrátturinn, taugakerfið, hugsanir, þvaglát, melting og breytingaskeiðið (ATH að vataorkan  (vata=haust) vex jafnan innra okkur með aldrinum). Nuddið á þó að vera mjúkt og mótandi. Það gefur jarðtengingu og stöðugleika.

 

Og ATH, ef þið náið ekki að nudda ykkur á hverjum degi, þá er það í lagi. Allir nýjir siðir taka tíma og um að gera að sýna ykkur smá “self-compassion”.

Frábærar olíur fyrir allar líkamsgerðir. sjá HÉR.

…Og fyrir forvitnissakir – og til skemmtunar!

Hér eru nokkur dæmi um ríkjandi líkamsgerð nokkura heimsfrægra einstaklinga, sem gætu gefið ykkur einhverjar vísbendingar:

VATA
Christy Turlington. Há og grönn. Alltaf á hreyfingu. Beinabert andlit. 

Mick Jagger. Síhoppandi. Skapandi. Grannur. Óútreiknanlegur. 

PITTA
Madonna: Skörp bisnesskona. Seig. Heimsfræg í langan tíma. Metnaðargjörn. Meðalhæð og -líkamsbygging.

Bill Gates. Fluggáfaður. Hefur allstaðar áhrif. Jafnvel utan síns fags. Metnaðargjarn. Umbúðarlaus.

KAFA
Oprah Winfrey: Stórgerð kona í mörgum skilningi. Stór glitrandi augu. Kærleiksrík og örlát.