NIÐURHAL LJÓSSINS Í SYSTRASAMLAGINU

23.03 2019

Niðurhal ljóssins og Niðurhlaðið, tvö verka Fríðu Kristínar Gísladóttur, verða til sýnis og sölu í Boðefnagalleríi Systrasamlagsins frá og með fimmtudeginum 28. mars. Verkin málar Fríða í kærleiksvitund með þeim ásetningi að veita vellíðan og að lyfta upp orku þess rýmis sem verkin eru staðsett í. FrÍða málar í hugleiðslu og fullkomnu trausti um að ástin flæði í gegnum hendur hennar.

Í tilefni fimmtudagsins ætlar hópur kvenna sem Fríða tilheyrir; SeiðGyðjan (sannarlega gyðjur, hver og ein þeirra) að tengja inn í hjartað með trommuslætti og söng til að miðla kærleika, gleði, visku og krafti. Þær ætla meðal annars að magna upp seið við eldstæði í porti Systrasamlagsins.

Systur bjóða upp á göróttan drykk milli 17-19 og seiðandi súpa mallar í pottinum fyrir þá sem vilja kaupa sér djúpa næringu. 15% verður af öllum vörum í verslun og líka bláum matcha.
Allir eru velkomnir.

Með verkunum sínum, Niðurhal ljóssins og NiðurHlaðið vill Fríða minna á að við höfum öll aðgang að kærleiksríkustu vitund alheimsins. Við erum öll tengd við almættið. Og þegar við hlúum að okkur sjálfum og ræktum sjálfsást eflum við þessa tengingu. Þannig heiðrum við okkur sjálf og almættið. 
“Það eina sem við þurfum að gera er að sleppa því að hafa áhyggjur. Þegar við biðjum kærleiksorkuna að streyma í gegnum okkur, hugsa fyrir okkur og vinna með okkur, gengur allt betur,” segir Fríða.

Meira um Fríðu Kristínu Gísladóttur:

Fríðu varð snemma ljóst að hún ætlaði að vera listamaður. Þegar hún var sextán ára vann hún samkeppni við að gera myndverk á framhlið Ísbjörnsins sem þá var fiskvinnsla á besta stað á Seltjarnarnesi (ekki langt frá gamla Systrasamlaginu). Síðan lá leið hennar í Myndlistar- og handíðarskóla Íslands. Um tíma stóð hugur hennar til að fara í fatahönnun. Hún fór í þeim tilgangi til Spánar í nám við Artes y Offcios á Malaga. Dvölin á Spáni var þó lengri og öðruvísi en Fríða ætlaði því þar byrjaði  hún að vinna sem módel og stýrði líka mörgum tískuþáttum fyrir blöð og tímarit. Um aldamótin tók hún upp þráðinn í myndlistinni, lærði meira og hóf að mála olíumálverk og hefur ekki stoppað síðan. 
Fríða hefur mikla ástríðu fyrir litum og hefur tilhneingu til að kafa inn í ákveðna liti. Ást hennar og tenging við náttúruna og æðri vitund er augljós. Verk hennar hafa farið út um allan heim. Nýverið fékk hún birt verk eftir sig í þekktu tímariti um menningu og listir í New York og var þar í hópi heimsfrægra listamanna. Blaðið er styrkt af Havard og er dreift í alla helstu listaskóla og listasöfn. Í júlí verður hún með sýningu í Gallerí Göng í Hàteigskirkju og í águst verður hún með à samsýningu i Zürich i Swiss.

Fríða hefur haldið 15 einkasýningar og fjölda samsýninga. Hún er ein af listamönnunum sem reka gallerí ART67, við Laugaveg 61

Það er ekki síður áhugavert að nefna myndir hennar Niðurhal ljóssins og Niðurhlaðið muni prýða og verma Systrasamlagið, einmitt þegar niðurhal ljóssins er mest.

Sýningarstóri Boðefnagallerísins er Anna Kristín Þorsteinsdóttir.