HLUSTAÐ Á FEGURÐ

21.05 2019

Hljóðverkið, Hlustað á fegurð, var unnið samhliða lokaverkefni Andreu Magdalenu Jónsdóttur við listkennsludeild Listaháskóla Íslands. Hljóðverkið er hannað inn í rými Systrasamlagsins.

Þátttakendur í rannsókninni veittu leyfi til þess að notuð yrðu textabrot úr bréfum þeirra sem voru klippt saman og þau hafa hvorki upphaf né endi.

Það má snerta verkið og með því að leggja eyrað að opinu heyrist samtal um fegurð.

Að baki fegurðinni
Rannsókn Andreu leitast við að greina hvernig blindir og sjáandi skynja fegurð út frá mismunandi nálgunum eigin skynfæra. Þátttakendur eru fimm listamenn og konur á aldrinum 17 til 73 ára. Einn af þeim gegnir lykilhlutverki. Það er kona sem er fædd blind og hefur skrifast á við alla aðra sem taka þátt í rannsókninni. Vegna þess hve mikil áhersla er á hið sjónræna í daglegu lífi fólks er áhugavert að skoða það nánar eins og gert er í þessari rannsókn. Bréfaskriftir eru sjaldgæf gagnasöfnun í eigindlegum rannsóknum. Þessi leið hentaði þó rannsókninni vel, þar sem þátttakendur þekktust ekki og skrifuðu undir nafnleynd.

Niðurstöður rannsóknarinnar gefa hugmynd um það hvernig fimm listrænir einstaklingar tjá sig í rituðu máli um fegurð og það er ekki svo mikill munur á þótt einn þeirra sé blindur. Bréfritarar höfðu ekki áður sest niður og skrifað um fegurð. Flestum fannst flókið að útskýra hvað væri fegurð í þeirra huga þó allir hefðu svör við því hvað væri fegurð. Því fylgdi frelsi að skrifast á undir nafnleynd. Bréfritarar deildu trúnaðarmálum og leyndarmálum en þeir vissu að þeir myndu aldrei hitta eða vita við hvern þeir voru að skrifast á við.


Um Andreu Magdalenu:
Andrea Magdalena Jónsdóttir með BA próf í mannfræði frá Háskóla Íslands. Hún lærði myndlist við Listaháskóla Íslands og var í meistarnámi í hönnun við sama skóla. Í júní útskrifast hún úr listkennsludeild Listaháskóla Íslands með MA gráðu.