ÁSTARSORG Í EYJUM Í BOÐEFNAGALLERÍ-inu

11.06 2020

Þessa daganna stendur yfir áhugaverð ljósmyndasýning í Boðefnagallerí-i Systrasamlagsins. Sýningin nefnist Ástarsorg í Eyjum og samanstendur af fjórum verkum kvikmyndagerðarkonunnar Elísabetar Elmu.
 

Elísabet Elma nam ljósmyndun, meðal annarra myndlistaforma, í lýðháskóla á Jótlandi haustið 2009. Í kjölfarið stundaði hún nám í kvikmyndafræði í Háskóla Íslands með kynjafræði til hliðar. Undanförnum árum hefur hún varið í Prag við nám í kvikmyndaleikstjórn en ljósmyndaáhuginn hefur aldrei dvínað, enda ekki alls óskyldur. 

 

Föðurforeldrar Elísabetar Elmu eru búsettir í Vestmannaeyjum og þangað var hún send á hálfs árs fresti sem barn; ekki til þess að spranga og borða lunda, heldur heimagerðar pítsur afa og horfa á Glæstar vonir með ömmu. Árið 2014 var orðið langt síðan síðast og í ástarsorg endasendist hún í sjálfskipaða útlegð í Eyjafaðm. Úr varð myndasafnið Ástarsorg í Eyjum.

Ljósmyndirnar eru líka til sölu.