Select Page

Pistill

BRÖGÐIN 6 Í AYURVEDA

Ayurveda | Greinar

Eitt af áhugaverðari tjáningaformum náttúrunnar er það ólíka bragð sem fæðan færir okkur. Og ekki nóg með það, heldur gefur hver bragðheimur okkur ákveðin heilsufarsleg lífsgæði. Vandinn er hins vegar sá að verulega vantar upp á að Vesturlandabúar neyti allra bragða náttúrunnar. Það sem flesta skortir til að halda góðu jafnvægi eru fæðutegundir sem flokkast sem beiskar, sterkar og herpandi. Skortur á þessum bragðgæðum veikir meltinguna og ýtir undir eitrun í líkamanum. Vegna þess að án þeirra nær líkaminn ekki að hreinsa sig. Ólíkt því sem áður var er þó auðveldara en nokkru sinni að verða sér úti um beiska, sterka og herpandi fæðu. Raunar búa nokkrar magnaðar lækningajurtir; krydd eins og túrmerik og kardimommur sem við í Systrasamlaginu notum mikið, yfir fleiri en einni tegund bragðgæða.

Í ljósi þessa skorts á fæðuflokkum, tala þeir sem þekkja indversku lífsvísindin best, gjarnan um kafa ójafnvægi Vesturlandabúa. Þetta sé megin ástæðan fyrir því hversu þung og bjúguð við erum. Það stafar einfaldlega að því að við borðum of mikið sætt, salt og jafnvel súrt á kostnað annarra bragðtegunda. Samkvæmt Ayurveda (indversku lífsvísindunum) sem sannarlega standast tímans tönn og eiga vaxandi fylgi að fagna á ný, eru bragðgæði náttúrunnar sex talsins. Þetta eru sætt, súrt, salt, sterkt, herpandi og beiskt.

Bragðgæði náttúrunnar og eiginleikar þeirra:
Sætt: Í góðu hófi getur hið náttúrulega sæta gefið okkur ánægju, lífskraft, styrkt vefjafrumuefnin og taugakerfið. Undir sætt flokkast ávextir, mjólkurmatur, korn, hnetur, möndlur, sesam- og sólblómafræ og hrísgrjón. En um leið og náttúruleg óunnin sæta getur nært milta og briskirtil getur ofgnótt sætu, sérstaklega unnin sæta, skaðað þessi líffæri líka.

Salt: Viðheldur vökvajafnvægi í líkamanum og örvar meltinguna. Ef við borðum of mikið salt, sérstaklega af næringarsnauðu salti, sem ekki geymir fjölda góðra steinefna, (sem á jafnan við um Vesturlandabúa), getur það skaðað nýrun og líka -haldið ykkur nú fast- aukið hrukkumyndun. Besta hugsanlega náttúrusaltið er himalayasalt (sem við í Systrasamlaginu notum í okkar matargerð) og nokkrar góðar tegundir sjávarsalts. Annað sem er saltað frá náttúrunnar hendi er t.d. sjávargrænmeti og sellerí.

Beiskt: Hið beiska bragð skortir einna mest á hjá Vesturlandabúum. Það er útvíkkandi, hreinsar óhreinindi úr líkamanum, nærir lifrina og ljáir húðinni líf. Dæmi um beiska fæðu sem gott er að neyta reglulega er sítróna (hún er ekki súr) og guði sé lof fyrir kaffið og súkkulaðið (70%) því annars væri líklega alger skortur á beisku bragðgæðunum á Vesturlöndum. Annað sem telst beiskt er grænkál, klettasalat, rabarbari, iceberg, túrmerik, lakkrís og sesamfræ (sem eru líka sæt). Of mikið af beiskri fæðu getur skaðað hjartað.

Sterkt: Örvar blóðrás og meltingu, þurrkar, losar stíflur, er hitagefandi og gerir okkur skýr í hugsun. Í þessum fæðuflokki eru t.d. rauður pipar, laukur, kardimommur, radísur, sinnepsfræ og hvítlaukur. Of mikið af sterku getur skaðað ristilinn.

Súrt: Örvar matarlyst og bætir meltinguna. Dæmi um súra fæðu eru t.d. plómur, jarðaber, tómatar, sítrusávextir, óþroskaðir ávextir, miso og ostar. Of mikið súrt getur hins vegar haft slæm áhrif á lifrina (talsvert vandamál meðal Vesturlandabúa).

Herpandi/samandragandi: Slíkar fæðutegundir er að finna víða í náttúrunni og við Íslendingar erum að verða ágætlega sett þar. Dæmi um herpandi fæði eru epli (sem eru líka sæt), kartöflur og grænt grænmeti, kanill, kardimommur, túrmerik, granatepli, trönuber, bláber, kóríander. Herpandi fæða færir okkur skerpu, dregur úr bólgum, græðir magasár, er róandi og dregur úr flæði líkamsvessa. Ef hennar er ekki neytt í hófi getur hún skaðað ristil.

Hver og einn ætti að neyta fæðu daglega úr öllum þessum fæðuflokkum, helst í hverri einustu máltíð. Þótt að engin boð og bönn séu í Ayurveda er jafnvægið þar hávegum haft. Það er  til þess að okkur getir liðið sem best bæði andlega og líkamlega.

Kardimommur  – ein af uppáhalds lækningajurtum Systrasamlagsins!
Kardimommur, sem við systur notum mikið hafa verið skilgreindar sem “Ela” í Ayurvedísku fræðunum sem merkir hreinsandi, bólgueyðandi og verkjastillandi. Góðar lífrænar kardimommur eru því þyngdar sinnar virði í gulli. Þær eru mjög mikils virði fyrir heilsuna samkvæmt þessum elstu reynsluvísindum heims. Helstu kostir kardimomma eru þeir að þær styrkja meltingarkerfið á marga vegu, m.a. draga úr uppþembu, brjóstsviða og slá á ógleði. Í indversku fræðunum er þekkt að kardimommur vinni á lofti og vatni, þannig auka þær matarlyst á jákvæðan hátt – án þess að hvetja til ofáts – og sefa viðkvæma slímhúð meltingarfæranna, þ.e. kardimommur auka magasýrurnar sem örva meltinguna. Og flokkast sem herpandi, sætar og sterkar. Við notum eingöngu lífrænar heilar kardimommur í Systrasamlaginu.

…og túrmerkið
Önnur lækningajurt sem flokkast undir fleira en eina bragðtegund (og fleiri en tvær)  er túrmerik sem er í senn herpandi, sterk, beisk og svolítið sætt og því ekki að ástæðulausu jafn mögnuð lækningajurt og raun ber vitni. Við notum hana mikið í Systrasamlaginu í drykk og mat.